Íslenski boltinn

FH hafði betur í Hafnafjarðarslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
FH sótti góðan sigur á Ásvelli.
FH sótti góðan sigur á Ásvelli. vísir/ernir
FH vann öruggan sigur á Haukum, 3-0, í Hafnafjarðarslag í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í kvöld en leikurinn fór fram á Ásvöllum, heimavelli Hauka.

FH komst í 1-0 á 26. mínútu þegar Margrét Björg Ástvaldsdóttir skoraði sjálfsmark. Hún skallaði þá fyrirgjöf gestanna yfir Toni Ornela í markinu og í netið.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á 57. mínútu bætti Guðný Árnadóttir við marki fyrir FH og fimm mínútum síðar innsiglaði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sigurinn fyrir gestina. Lokatölur, 3-0.

Eftir tap fyrir meistaraefnum Breiðabliks, 1-0, í fyrstu umferðinni er FH nú búið að vinna tvo leiki í röð í Pepsi-deildinni. Það lagði Fylki, 2-0, í síðustu umferð og nú nýliða Hauka.

FH er því með sex stig eftir þrjár umferðir en nýliðar Hauka eru án stiga eftir tapleiki á móti Stjörnunni, Grindavík og FH.

Þetta var fyrsti Hafnafjarðarslagurinn í efstu deild í sjö ár eða síðan liðin voru saman í Pepsi-deildinni árið 2010. Haukar unnu seinni leik liðanna, 1-0, í lokaumferðinni það árið en montrétturinn er nú FH-inga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×