Þrettán ára dansi geimfarsins Cassini umhverfis Satúrnus er lokið. Geimfarið, sem skotið var á loft frá Canaveral-höfða 15. október 1997, hefur varpað nýju ljósi á þetta djásn sólkerfisins og hið stórbrotna kerfi hringa sem einkenna það.
Cassini er einhver merkasti vísindaleiðangur mannkynssögunnar. Yfir fjögur þúsund vísindagreinar, sem byggja á gögnum Cassini, hafa verið birtar. Á hringsóli sínu um Satúrnus hefur geimfarið jafnframt svipt hulunni af leyndardómum sem leynast á fylgitunglum plánetunnar.

Í gær tók Cassini sína síðustu dýfu milli hringa Satúrnusar. Leiðangri farsins lauk í lofthjúpi plánetunnar sem það hefur hringsólað um síðasta áratug. Á ógnarhraða fuðraði Cassini upp.
Mælitækin, linsurnar, tölvubúnaðurinn og plútóníumkjarninn sem knúið hefur geimfarið leystust upp í andrúmslofti plánetunnar. Cassini er nú endanlega orðinn hluti af Satúrnusi.

Á síðustu þrettán árum hefur Cassini ítrekað brotið blað í vísindasögunni. Lendingarfarið Huygens, sem ferðaðist með Cassini, lenti á tunglinu Títan 14. janúar 2005 og sendi myndir af yfirborði þess til Jarðar.
Síðan þá hefur geimfarið myndað og aflað upplýsinga um hin miklu metanhöf á Títan og lífvænleg skilyrði á tunglinu Enkeladusi en þar leynist vatn á 30 til 40 kílómetra dýpi undir ísilagðri auðn. Geimfarið bragðaði jafnframt á vatnsstrókum sem Enkeladus spýr úr suðurpól sínum.

Cassini hefur jafnframt horft ofan í ómælisdýpið á norðurpól Satúrnusar. Umhverfis hyldýpið geisar ævaforn fellibylur sem teygir anga sína yfir rúmlega tvö þúsund kílómetra.
Þetta er aðeins brotabrot af uppgötvunum Cassini. Þessar uppgötvanir eru ástæðan fyrir því að næstu ferðalangar mannkyns til Satúrnusar, sama hvort þeir verða vélrænir eða af holdi og blóði, munu fara þangað í leit að lífi.