Helga Margrét Gunnarsdóttir gerði sér ferð niður í miðbæ Reykjavíkur í gær. Hún og vinkonur hennar settust niður á veitingastaðnum Eldsmiðjunni á Laugavegi, sleiktu sólina og pöntuðu sér pítsur. Þær náðu þó ekki að torga öllum sneiðunum en nokkrar voru eftir í lok máltíðar.

„You know, everything is so expensive here“
Í samtali við Vísi segir Helga Margrét að ferðamennirnir, sem sögðust vera frá Berlín í Þýskalandi, hafi aðspurðir sagt ástæðuna fyrir bóninni vera hátt verðlag á Íslandi.
„Það var bara „you know, everything is so expensive here,“ bara að þetta væri allt svo dýrt hérna á Íslandi.“
Þá segir hún ferðamennina, tvo karla og tvær konur, hafa verið hina allra venjulegustu túrista.
„Þau voru alls ekki fátækleg eða neitt svoleiðis, bara venjulegir ferðamenn.“
Ferðamannapúlsinn, sem mælir ánægju ferðamanna með dvöl sína á Íslandi, var marktækt lægri núna í maí en í maí árið 2016. Einn af undirþáttum ferðamannapúlsins sneri að því hvort Íslandsferðin hafi verið peninganna virði en sá þáttur hefur lækkað um tæp 7 stig síðastliðna 12 mánuði. Styrking krónunnar er þar talin spila stórt hlutverk.
Svo krúttleg að þær gátu ekki sagt nei
Vinkonurnar tóku vel í bón unga fólksins á Laugaveginum í gær en Helga Margrét segir sjálfsagt að sporna við matarsóun á þennan hátt.
„Við hefðum líklega tekið afgangana með okkur en þau voru bara svo krúttleg að það var ekki hægt að segja nei við þau,“ segir Helga Margrét sem sýnir málinu fullan skilning.
„Já, já, okkur fannst þetta aðallega bara fyndið. En bara flott hjá þeim, og gott að vera ekki að sóa mat.“
En er þetta í fyrsta sinn sem Helga Margrét fær dýrtíðina í Reykjavík, frá sjónarhorni túrista, svona beint í æð?
„Já, ég hef allavega ekki lent í neinu svona áður.“
Færslu Helgu Margrétar frá því í gær má skoða í heild sinni hér að neðan.