Innlent

Björt gagnrýnir ummæli Sigurðar Inga um ákvarðanafælni núverandi ríkisstjórnar í ferðamálum

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýnir orð Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknar, sem höfð voru eftir honum í frétt RÚV, þar sem hann sakar núverandi ríkisstjórn um ákvarðanafælni í ferðamálum.

Þar segir Sigurður að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sýni fram á ráðaleysi hennar og vísar í nýjar hugmynd Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, ráðherra ferðamála, um að stofna nýja rannsóknareiningu innan ráðuneytisins sem sjái um að rannsaka fjöldatakmarkanir og gjaldtöku á ferðamannastöðum. Vildi hann meina að nóg sé af efniviði til að styðjast við og því þurfi einungis að fara að taka ákvarðanir.

Björt er ekki sátt og segir ferðamál undir stjórn núverandi ríkisstjórnar vera í góðum málum. Þau séu að taka afstöðu og ákvarðanir í málum er varða ferðaþjónustuna. Björt gagnrýnir í því samhengi aðgerðarleysi Framsóknarflokksins sem hugðist í stjórnartíð sinni setja á komugjöld, en ekkert varð úr því. Framsókn hefur einnig sett sig upp á móti virðisaukaskattshækkunum og vill heldur breyta gistináttagjaldi.

Sjálf segist hún hafa tekið sér stöðu með hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og ætli sér ekki að víkja undan þeirri ákvörðun. Hún segist þó vissulega hugsa til lítilla byggðarlaga sem hún skilur að vilji ekki vera háð því „limbói sjávarútvegs og kvóta sem kemur og fer“, eins og hún orðar það.

Því muni 800 milljónir króna af skattfé úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fara út á land auk 400 milljónir króna frá umhverfisráðuneytinu sem eigi að vernda náttúru og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða.

Björt segir að henni þyki umræður stóru aðilanna í ferðaþjónustu um tekjuöflun ríkisins afar áhugaverð og finnst skrítið að þau fyrirtæki beri fyrir sig rök lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu út á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×