„Síðustu sólarhringar hafa verið þeir mögnuðustu en jafnframt með þeim erfiðari sem ég hef upplifað,“ segir Vilborg Arna sem birtir mynd af sér á toppi Everest á Facebook-síðu sinni í dag.
Er þetta fyrsta myndin af Vilborgu við toppinn sem birtist almenningi.

„Það er ólýsanleg tilfinning að standa á toppi veraldar og horfa yfir heiminn. Dýrmæt reynsla og eitthvað sem ég hefði ekki viljað missa af,“ segir Vilborg
„Hér er ég að stíga síðustu skrefin inn á toppinn með tilheyrandi tilfinninga rússíbana.“
Vilborg Arna toppaði Everest klukkan 3:15 aðfaranótt sunnudagsins 21. maí. Þetta var hennar þriðja tilraun við tindinn en hún er sjöundi Íslendingurinn til að komast á toppinn.
Á heilanum í fimmtán ár
Vilborg Arna reyndi fyrst við Everest vorið 2014. Hún var í grunnbúðunum þegar snjóflóð féll og sextán létust. Vorið 2015 fór hún aftur en þegar hún var rétt komin í grunnbúðirnar varð gríðarmikill jarðskjálfti. Þrjátíu manns í grunnbúðunum lét lífið og þúsundir á landsvísu.
Hún var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum þar sem hún sagði Everest vera ástríðu sína og hún hefði hugsað um þetta fjall í fimmtán ár.
Everest er 8.848 metra hátt.