Erlent

Framkvæmdastjórinn hæddi og smánaði fegurðardrottningar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sam Haskell.
Sam Haskell. Vísir/afp
Framkvæmdastjóra bandarísku fegurðarsamkeppninnar Ungfrú Ameríku (Miss America) hefur verið vikið úr starfi fyrir að rita ósæmilegar athugasemdir um stúlkur í keppninni. Athugasemdirnar sendi hann samstarfsmanni sínum í tölvupóstum sem lekið var á netið. Tölvupóstskeytin birtust fyrst á vef Huffington Post en einnig var fjallað um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Framkvæmdastjórinn, Sam Haskell, er sagður hafa ritað alls kyns óhróður um keppendurna í tölvupóstsamskiptum sínum við handritshöfund sem starfaði fyrir keppnina. Haskell á að hafa talað andstyggilega um holdafar stúlknanna, sem margar eru fyrrverandi sigurvegarar keppninnar, og kynlíf þeirra. Hann virðist hafa ýjað að því að einhverjar stúlknanna væru lauslátar og eru skrif hans þrungin drusluskömm.

Þá var Haskell vikið úr starfi eftir að 49 fyrrverandi sigurvegarar skrifuðu undir opið bréf sem birt var í gær. Í bréfinu voru Haskell, og aðrir háttsettir starfsmenn innan Ungfrú Ameríku-samtakanna, hvattir til að segja af sér.

„Þetta kom mér ekki á óvart þegar ég las tölvupóstana fyrst, en ég fékk ákveðna staðfestingu,“ sagði Mallory Hagan, sem hreppti titilinn Ungfrú Ameríka árið 2013 og var ein þeirra sem nafngreind er í tölvupóstum Haskell. Hún sagðist lengi hafa haldið því fram að hegðun á borð við þessa sé viðloðandi fegurðarsamkeppnina.

Þá hefur framleiðslufyrirtækið Dick Clark Productions slitið samstarfi við keppnina.

Í yfirlýsingu frá aðstandendum keppninnar segir að Haskell hafi verið undir „gríðarlegu álagi“ þegar hann ritaði ummælin um stúlkurnar. Hegðunin sé þó ekki í samræmi við stefnu samtakanna og biðjast þau því afsökunar á framferði Haskell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×