Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi Gleðipinna ehf. sem er rekstrarfélag Keiluhallarinnar. Samkvæmt honum námu rekstrartekjur félagsins 614 milljónum í fyrra samanborið við 274 milljónir árið áður. Leiga á keilubrautum nam 213 milljónum, jókst um 76 milljónir milli ára, en veitingasalan velti 400 milljónum. Í þeim hluta nam aukningin á milli ára 267 milljónum en eigendur Gleðipinna opnuðu veitingastaðinn Shake & Pizza haustið 2015 í Egilshöll og reka þar einnig sportbar. Rekstrargjöld jukust aftur á móti úr 260 milljónum árið 2015 í 525 milljónir.

Árið 2016 var annað starfsár Gleðipinna en félagið var stofnað í febrúar 2015. Þeir Sigmar og Jóhannes, eða Simmi og Jói, oftast kenndir við Hamborgarafabrikkuna, keyptu þá rekstur Keiluhallarinnar ásamt Jóhannesi Stefánssyni, oftast kenndum við Múlakaffi. Simmi er framkvæmdastjóri félagsins en Jói einn þriggja stjórnarmanna.