Viðskipti innlent

Eimskip kaupir Mareco á tvo milljarða

Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland.
Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland. Vísir/Stefán
Eimskip hefur keypt 80 prósenta hlut í frystiflutningsmiðlunarfyrirtækinu Mareco N.V. í Belgíu á jafnvirði um tveggja milljarða króna. Samkvæmt tilkynningu Eimskips nemur ársvelta Mareco um 60 milljónum evra eða um 7,3 milljörðum króna.

Mareco var var stofnað árið 2002 og eru höfuðstöðvar þess í Antwerpen í Belgíu. Núverandi stjórnendateymi mun áfram eiga 20 prósenta hlut í fyrirtækinu og stýra rekstri þess.

„Mareco leggur áherslu á frystiflutninga, einkum á útflutning víðs vegar að úr heiminum til Vestur-, Mið- og Suður-Afríku. Helstu vörutegundir eru sjávarafurðir, kjúklingur, svínakjöt og nautakjöt. Ársvelta fyrirtækisins nemur um 60 milljónum evra eða um 7,3 milljörðum króna, EBITDA hlutfall er á bilinu 5-6 prósent og nemur flutt magn um 32 þúsund gámaeiningum á ári,“ segir í tilkynningu Eimskips.

Áætluð fjárfesting nemur 16,6 milljónum evra og eru kaupin fjármögnuð með handbæru fé og lánsfé. Mareco verður hluti af samstæðu Eimskips frá og með byrjun þessa árs.

„Í tengslum við fjárfestingarverkefni Eimskips hefur félagið samið við Íslandsbanka um lánalínu til 18 mánaða að fjárhæð 47 milljónir evra. Vegna kaupanna á Mareco hafa 7 milljónir evra verið dregnar á línuna,“ segir í tilkynningunni.

„Við erum ánægð með að Mareco er nú orðið hluti af samstæðu Eimskips og fyrirtækið mun styrkja frekar frystiflutningsþjónustu okkar með útvíkkun á þjónustuframboði Eimskips, bæði hvað varðar nýja vöruflokka og ný landssvæði. Breytingin mun einnig auka fjölbreytileika okkar og dýrmæt reynsla stjórnenda og starfsmanna Mareco mun hjálpa til við að styrkja okkar alþjóðlegu flutningsmiðlunarþjónustu,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×