Mætingin á fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta þetta sumarið var ekkert sérstök en ríflega 3.000 fleiri mættu á fyrstu umferðina í fyrra.
Alls mættu 5.818 áhorfendur á leikina sex eða 970 að meðaltali á hvern leik. Á síðustu leiktíð mættu 8.996 áhorfendur á leikina sex í fyrstu umferð eða 1.499 að meðaltali á hvern leik.
Þetta er fækkun um 3.178 áhorfendur eða ríflega 500 manns á hvern leik. Fæstir mættu á viðureign ÍBV og Fjölnis eða 662 manns en flestir sáu leik KR og Víkings í Frostaskjólinu en þangað mættu 1.430 áhorfendur.
Veðurfar setti vafalítið strik í reikninginn en mætingin var undir 1.000 áhorfendum á þremur leikjum af sex. Í fyrstu umferðinni í fyrra var aðeins einn leikur undir 1.000 áhorfendum í fyrstu umferð en þrír yfir 1.700.
Mætingin síðasta sumar var sú slakasta í áraraðir enda hafði EM sín áhrif á mótið sem þótti ekki skemmtilegt.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)