Tveir menn voru handteknir í Borgartúninu nú seinni part dags í tengslum við árás sem átti sér stað í Hafnarfirði í gærkvöldi. Sérsveitin var kölluð á svæðið eftir að ábending barst.
„Í gærkvöldi var tilkynnt um bíl í Hafnarfirði. Þá komu aðilar úr bílnum og beindu skotvopnum að mönnum í öðrum bíl á plani fyrir utan veitingastað í Hafnarfirði. Það er vitni að þessu sem tilkynnir,“ segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni í Hafnarfirði, í samtali við Vísi.
Alls hafa fjórir verið handteknir. Sævar segir að bíll árásarmannanna hafi fundist í gærkvöldi og þá hafi fyrstu tveir verið handteknir. Þeim hafi hins vegar verið sleppt að lokinni yfirheyrslu.
Sá sem talinn var hafa verið með skotvopnin undir höndum var þó ekki einn þeirra.
„Hann var farinn úr bílnum og hann var síðan handtekinn í dag ásamt öðrum í Borgartúninu,“ segir Sævar.
Sævar gerir ráð fyrir að mennirnir tveir verði líklega yfirheyrðir um helgina.
Sérsveitin handtók tvo menn í Borgartúni
Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
