Valur komst í gær í átta liða úrslit Áskorendabikars Evrópu í handbolta þegar liðið gerði jafntefli, 24-24, við svartfellska liðið RK Partizan ytra. Fyrri leikurinn fór fram á sama stað á laugardaginn og þá varð jafnt, 21-21. Valur fór því áfram, samanlagt 45-45, á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
„Við sýndum alveg fáránlega góðan karkater að klára þetta undir lokin,“ segir Anton Rúnarsson, leikstjórnandi Vals, en Fréttablaðið náði í hann skömmu eftir leik. Valsmenn voru 23-21 undir þegar fimm mínútur voru eftir en sneru dæminu við. Anton skoraði 24. markið sem kom Hlíðarendaliðinu áfram.
„Það var svakaleg harka í þessum leikjum. Dómararnir leyfðu mikið og því lítið skorað enda héldu þeir hraðanum niðri. Þeir börðu mann alveg hægri vinstri en sjaldnast var eitthvað dæmt. Þeir komu okkur á óvart með góðum varnarleik. Þetta er hörku gott lið en bara frábært hjá okkur að komast áfram,“ segir Anton.
Eins og svo oft þegar ferðast þarf austarlega í álfunni til að spila handboltaleiki er eitthvað ákaflega sérstakt sem kemur upp á umgjörðinni.
„Þetta var einn mesti brandari sem ég hef lent í. Það var könguló á veggnum inni í búningsklefa og hann var ískaldur. Það var ekkert kveikt á hitanum heldur kom maður með ferðahitara. Við létum þó hvorki þetta né dómarana fara í taugarnar á okkur,“ segir Anton Rúnarsson.
Valsliðið heldur nú í langt ferðalag heim til Íslands með rútuferð til Króatíu og viðkomu í London. Valsmenn þurfa að komast fljótt niður á jörðina því þeir eiga leik á móti FH í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins á föstudaginn.
Könguló og ískaldur klefi stoppaði ekki Valsmenn í Svartfjallalandi
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið

Stefán benti á tattúið og minntist frænku sinnar
Enski boltinn

Neyddir til að spila í miðri þjóðarsorg
Handbolti

Útskýrði af hverju Burn var dekkaður af mun lægri manni
Enski boltinn

Segir Arnór líta ruddalega vel út
Fótbolti


Sjáðu Albert skora gegn Juventus
Fótbolti

„Rjóminn á kökuna fyrir okkur“
Íslenski boltinn


