Innlent

Slökkvi­liðs­menn í jóm­frúar­ferð glímdu við al­elda bíl í Staðar­skála

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eldur kviknaði í sendiferðabíl Flugfélags Íslands á bílaplaninu við Staðarskála um klukkan hálf eitt í hádeginu í dag. Svo heppilega vildi til að ökumaðurinn hafði fært bílinn frá bensíndælunum augnablikum fyrr.

Pétur Ragnar Arnarsson, slökkviliðsstjóri á Hvammstanga, segir í samtali við Vísi að útkall hafi borist klukkan hálf eitt og var slökkviliðið mætt á vettvang átján mínútum síðar.

„Við vorum mjög fljótir á staðinn og það gekk vel að slökkva,“ segir Pétur. Ökumaðurinn hafi sem fyrr segir fært bílinn skömmu áður frá bensíndælunum vegna þess að honum fannst bíllinn farinn að hitna. Ætlaði hann að athuga með olíuna á bílnum þegar allt í einu kviknaði í vélarúminu.

 

Nýi slökkviliðsbíllinn sem mikil ánægja ríkir með hjá brunavörnum Húnaþings vestra.Pétur Arnarsson
„Það var mikil mildi að hann ók bílnum frá dælunum því hann var alelda þegar við komum,“ segir Pétur Ragnar. Í bílnum voru ýmsir varahlutir, olía og því um líkt fyrir flugvélar. Allt er ónýtt, þar með talinn bíllinn.

Pétur Ragnar segir að slökkvliðsmönnunum hafi krossbrugðið þegar sprenging varð á meðan á slökkvistörfum stóð. Um var að ræða flugvéladekk í farangurstými bílsins sem sprakk.

Eftir stendur að enginn slasaðist og slökkvistarf gekk vel. Þannig vill til að um var að ræða jómfrúarútkall á nýjum bíl slökkviliðsins.

„Hann kom alveg svakalega vel út,“ segir Pétur Ragnar og er ánægður hve fljótir þeir voru á staðinn. Ekki liggur fyrir hvers vegna kviknaði í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×