Innlent

Skólahald leggst af á Borðeyri næsta haust

Sveinn Arnarsson skrifar
Öllum börnum í Hrútafirði verður ekið í skóla til Hvammstanga næsta haust.
Öllum börnum í Hrútafirði verður ekið í skóla til Hvammstanga næsta haust. vísir/pjetur
Skólahaldi verður ekki framhaldið á Borðeyri við Hrútafjörð á næsta skólaári. Börnum hefur fækkað svo mjög í gamla Bæjarhreppi að ekki er talið hægt að halda úti skólastarfi á Borðeyri.

Þrettán íbúar eru með lögheimili á Borðeyri í dag en öllu fleiri í sveitunum í kring. Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir bæjarfélagið hafa hringt í foreldra á svæðinu og hlustað á íbúa.

Kristín Ólöf Þórarinsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskóla Húnaþings vestra, segir börnum hafa fækkað mjög. „Þegar ég sótti þennan skóla á síðustu öld voru um þrjátíu börn í skólanum. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að þrjú börn verði í skólanum á næsta skólaári,“ segir Kristín Ólöf.

Á sama tíma mun leikskólinn á Borðeyri, Ásgarður, leggjast af á næsta skólaári. Ein starfsstöð leikskóla og grunnskóla verður því starfandi á næsta skólaári, á Hvammstanga. Verður börnum ekið þangað.

„Eindreginn vilji byggðarráðs og sveitarstjórnar hefur verið til þess að halda úti skólastarfi á Borðeyri eins lengi og þess er nokkur kostur,“ segir í bókun byggðarráðs sveitarfélagsins. „Með fækkun nemenda er hins vegar komin upp breytt staða ef horft er til meðal annars félagslegra og faglegra sjónarmiða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×