En hvað kostar nýr rafgeymir í algengustu fólksbílana? FÍB kannaði verð á rafgeymum og hefur birt niðurstöður þeirrar könnunar. Talsverðar breytingar, þá aðallega til lækkunar, hafa orðið frá síðustu rafgeymaverðkönnun FÍB sem gerð var 14. október 2014.
Þá kostaði ódýrasti rafgeymirinn 14.995 krónur en sá dýrasti kostaði 26.560 krónur. Frá þeim tíma hefur vegið meðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu lækkað um 20%. Þann 1. janúar 2015 lækkaði almennt þrep virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% og á sama tíma voru vörugjöld á rafgeyma m.a. lögð af.
Innkoma Costco síðasta vor hefur einnig haft áhrif á markaðinn. Costco hefur reyndar hækkað verðið á Bosch 60 Ah rafgeyminum um ríflega 21% frá því í vor en þá kostaði hann 9.999 kr. Hjá Vöku kostar Bosch 60 Ah rafgeymir 15.990 kr og hjá Kemi kostar sami geymir 17.188 kr. Athygli vekur að ódýrasti rafgeymirinn 2014 var Exide 62 Ah hjá Bauhaus sem kostaði 14.995 kr. en þessi sami geymir kostar í dag hjá Bauhaus 21.295 kr.
