Fótbolti

María til Chelsea: Ég er eins og íslenskur víkingur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
María Þórisdóttir í leik með norska landsliðinu.
María Þórisdóttir í leik með norska landsliðinu. Vísir/Getty
María Þórisdóttir gekk í gær til liðs við Chelsea í Englandi frá Klepp í Noregi. Hún gerði tveggja ára samning við enska liðið.

María er fastamaður í norska landsliðinu en er hálfur Íslendingur - faðir hennar er Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs í handbolta.

„Ég er glöð og stolt af því að vera hluti af þessu liði. Það er stór draumur að rætast. Ég hlakka til að kynnast stelpunum og verða hluti af liðinu,“ sagði hún í viðtali sem má sjá hér fyrir neðan.

„Ég er eins og íslenskur víkingur. Ég vil fara af hörku í návígin mín og vinna boltann í loftinu. Ég ætla að reyna að spila vel fyrir liðsfélaga mína.“

María er 24 ára gömul og hefur hingað til spilað hjá Klepp allan sinn feril. Þess má geta að Chelsea drógst gegn Bayern München í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en liðin eigast við í upphafi október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×