Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að félagið hafi verið nálægt því að fá Kylian Mbappe til félagsins í fyrra, áður en hann sló í gegn með Monaco í frönsku úrvalsdeildinni.
Mbappe skoraði 26 mörk fyrir Monaco á síðasta tímabili er liðið varð franskur meistari. Hann var á dögunum lánaður til PSG í frönsku höfuðborginni sem mun svo kaupa hann næsta sumar fyrir 180 milljónir evra, jafnvirði tæpra 23 milljarða króna.
„Við vorum að vinna í þessu á síðasta ári,“ sagði Wenger á blaðamannafundi fyrir leik Arsenal gegn Bournemouth um helgina. „Hann var nálægt því að semja við okkur. Það voru meiri líkur á því í fyrra en í ár þar sem að samkeppnin var minni.“
Wenger reyndi einnig að sannfæra Mbappe um að semja við Arsenal í sumar, áður en hann gekk í raðir PSG.
„Hann er í hópi 10 prósent leikmanna sem geta valið sér hvert þeir fara. Hann hefði getað farið til Real Madrid, Arsenal, Manchester United og átt frábæran feril. Hann er ótrúlegur knattspyrnumaður.“
