Enski boltinn

Birkir Bjarnason samdi við Aston Villa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason með treyju Aston Villa.
Birkir Bjarnason með treyju Aston Villa. mynd/aston villa
Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, er genginn í raðir enska B-deildarliðsins Aston Villa en hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning félagið í dag. Samkvæmt frétt BBC borgar Aston Villa 1,75 milljónir punda eða ríflega 250 milljónir króna fyrir Birki.

Greint var frá því í gær að Birkir væri búinn að ná samningum við Aston Villa en hann fór í læknisskoðun hjá félaginu í dag og skrifaði eftir það undir samninginn.

Sjá einnig:Birmingham Mail fræðir lesendur um Birki Bjarnason: Afrekaði það sem enginn annar náði á EM

Birkir kemur til Aston Villa frá svissneska meistaraliðinu Basel sem hann er búinn að spila með frá sumrinu 2015. Hann varð meistari í Sviss með Basel á síðustu leiktíð og spilaði í Meistaradeildinni fyrir áramót með liðinu.

Aston Villa er sjöunda félagið sem Birkir mun spila með en þessi 28 ára gamli Akureyringur sem flutti ungur að árum til Noregs hefur á sínum ferli verið á mála hjá Viking í Stavanger, Stander Liege í Belgíu, Pescara og Sampdora á Ítalíu og nú síðast Basel í Sviss.

Hann skoraði tíu mörk í 29 deildarleikjum fyrir Basel á síðustu leiktíð og er nú búinn að skora fjögur mörk í þrettán deildarleikjum á yfirstandandi tímabili. Þessi grjótharði miðjumaður vakti mikla athygli á EM 2016 í Frakklandi á síðasta ári þar sem hann skoraði fyrsta og síðasta mark íslenska liðsins á mótinu.

Aston Villa er eitt sögufrægasta félagið í enska fótboltanum. Það hefur sjö sinnum orðið enskur meistari og sjö sinum bikarmeistari auk þess sem liðið varð Evrópumeistari meistaraliða árið 1982.

Villa féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en var fyrir það eitt af sjö liðum sem höfðu spilað allar leiktíðir ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar árið 1992.

Knattspyrnustjóri Aston Villa er Steve Bruce en hann tók við liðinu af Roberto Di Matteo í október í fyrra. Villa er í 13. sæti ensku B-deildarinnar með 36 stig og er án sigurs í síðustu fjórum leikjum.

Birkir Bjarnason verður fimmti íslenski landsliðsmaðurinn í ensku B-deildinni en þar eru fyrir Aron Einar Gunnarsson hjá Cardiff, Jón Daði Böðvarsson hjá Úlfunum, Ragnar Sigurðsson hjá Fulham og Hörður Björgvin Magnússon hjá Bristol City.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×