Enski boltinn

Ferguson ánægður með Mourinho: „Hann er að ná tökum á félaginu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex Ferguson og José Mourinho mættust oft á vellinum.
Sir Alex Ferguson og José Mourinho mættust oft á vellinum. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, er ánægður með vegferðina sem José Mourinho er á með liðið en tæp þrjú ár tæp eru síðan Skotinn kvaddi eftir sigursæl 27 ár í starfi. Hann er enn þá duglegur að mæta á leiki og er í góðu sambandi við félagið.

„Mér finnst hann vera að standa sig frábærlega,“ segir Sir Alex í einkaviðtali við breska ríkissjónvarpið en Mourinho er þriðji stjóri Manchester United síðan Skotinn hætti.

Mourinho vann fyrstu þrjá leiki sína í ensku úrvalsdeildinni en eftir það fékk liðið aðeins sex stig í næstu sjö leikjum. United er búið að vera fast í sjötta sæti síðan í lok október sama hversu marga leiki liðið vann í röð þegar það loksins komst í gang aftur.

„Það sjá allir að hann er að ná tökum á félaginu. Liðið er að spila virkilega vel og hann er búinn að vera óheppinn. Hann er búinn að horfa upp á sex 1-1 jafntefli og í öllum þeim leikjum var United miklu betra liðið. Ef það væri ekki fyrir öll þessi jafntefli væri United að keppa við Chelsea á toppnum,“ segir Sir Alex.

Búið er að senda Mourinho tvívegis upp í stúku á tímabilinu en Ferguson finnst Portúgalinn vera mun rólegri síðustu vikurnar. United mætir Hull í undanúrslitum deildabikarsins á morgun en liðið er ósigrað í síðustu 17 leikjum.

„José er að finna lausnir núna. Það var tímabil fyrr á leiktíðinni þar sem dómarnir voru ekki að falla með honum og þá báru tilfinningarnar hann ofurliði. Núna er hann miklu rólegri og heldur stjórninnni. Það sem ég sé núna frá United-liðinu er að það er spegilmynd stjórans,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×