Enski boltinn

Birkir: Heillandi að vera partur af einhverju stóru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Aston Villa fyrr í dag. Birkir kemur til Villa frá svissnesku meisturunum í Basel þar sem hann lék í eitt og hálft tímabil.

Birkir segir að félagaskiptin hafi ekki átt sér langan aðdraganda.

„Þetta gerðist mjög hratt. Á miðvikudaginn fékk ég að vita að þeir hefðu áhuga og þeir vildu fá mig strax á föstudaginn. Ég kom svo hingað eftir hádegi í gær,“ sagði Birkir í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

Birkir spilaði í Meistaradeildinni með Basel fyrir áramót, m.a. gegn stórliðum eins og Arsenal og Paris Saint-Germain. Hann segist auðvitað hafa þurft að hugsa sig um þegar hann heyrði af áhuga Villa sem leikur í ensku B-deildinni?

„Ég þurfti auðvitað að hugsa þetta og talaði við félagið og Steve Bruce. Eftir að ég heyrði hvaða plön þeir eru með og metnaðinn, þá leist mér ótrúlega vel á þetta,“ sagði Birkir sem er meðvitaður um að gæti þurft að spila með Villa í B-deildinni á næsta tímabili. Liðið situr nú í 13. sæti deildarinnar, níu stigum frá umspilssæti.

„Við sjáum bara til. Þetta breytist fljótt í þessum bolta. Þetta er ekki það langt frá en við skulum sjá hvað gerist í ár. En markmið þeirra er að komast upp eins og fljótt og hægt er

og vonandi verður það fljótlega,“ sagði Birkir. Að hans sögn var söluræða Steve Bruce, knattspyrnustjóra Villa, heillandi.

„Hún var mjög góð, ég talaði heillengi við hann í gær, áður en ég fór í læknisskoðunina. Það var mjög gott að heyra plönin hans og hvað hann vill frá mér. Það sem hann sagði var mjög spennandi,“ sagði Birkir sem er mjög hrifinn af framtíðarsýn Bruce og félagsins.

„Eins og þeir útskýrðu þetta fyrir mér og hvernig þeir horfa fram á við, þá fannst mér ótrúlega spennandi að vera hluti af því. Þetta er mjög stórt félag og það er mjög heillandi að vera partur af einhverju stóru,“ sagði Akureyringurinn sem mætti á sína fyrstu æfingu fyrr í dag. Hann segir hana hafa gengið vel.

„Ég skrifaði undir rétt fyrir æfinguna. Þetta virkar spennandi og það var fínt tempó. Það er ekki leikur um helgina sem er fínt því þá fæ ég nokkra daga til að undirbúa mig og venjast liðinu.“

Næsti leikur Villa er ekki fyrr en á þriðjudaginn þegar liðið sækir Brentford heim. Birkir segist vera klár að koma inn í byrjunarliðið ef kallið kemur.

„Við sjáum til, ég æfði allavega vel með Basel á undirbúningstímabilinu og líður mjög vel. Ef þeir vilja nota mig strax er ég klár og til í slaginn,“ sagði Birkir að endingu.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×