Enski boltinn

Meiri samkeppni fyrir Jóhann Berg hjá Burnley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Snodgrass og Jóhann Berg Guðmundsson.
Robert Snodgrass og Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Getty
Hull City hefur samþykkt tilboð Burnley í markahæsta leikmann Hull-liðsins á þessu tímabili. BBC segir að Burnley hafi boðið um tíu milljónir punda í Robert Snodgrass.

Robert Snodgrass er 29 ára skoskur landsliðsmaður sem er örfættur leikmaður sem spilar oftast á hægri kanti eða fyrir aftan framherjann.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er  örfættur leikmaður sem spilar oftast á hægri kantinum hjá Burnley. Jóhann Berg er því að fá meiri samkeppni með þessum kaupum.

Robert Snodgrass hefur skorað 7 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur eða meira en tvöfalt meira en næstmarkahæsti maður Hull-liðsins. Snodgrass hefur einnig lagt upp þrjú mörk fyrir félaga síns og Skotinn hefur því komið að 10 mörkum í 20 deildarleikjum á tímabilinu.

Snodgrass spilaði mikið á hægri kantinum til að byrja með en í undanförnum hefur hann verið að spila fyrir aftan framherjann.  Fjögur af sjö mörkum hans komu þegar hann spilaði á hægri kanti.

Robert Snodgrass hefur spilað með Hull City frá 2014 þegar hann kom til liðsins frá Norwich.

Jóhann Berg er með eitt mark og eina stoðsendingu í sextán deildarleikjum með Burnley á tímabilinu en hann hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu. Jóhann Berg hefur ekki verið í hópnum í síðustu tveimur leikjum en spilaði síðast á vinstri kantinum í 2-1 tapi á móti Manchester City 2. Janúar síðastliðinn.

Það var fyrsti og eini byrjunarliðsleikur Jóhanns síðan að hann meiddist í fyrri leiknum á móti Manchester City sem fór fram 26. Nóvember síðastliðinn.  Þetta var líka einn af fáum leikjum hans á vinstri kanti enda hefur hann langmest spilað á hægri kanti á sínu fyrsta tímabili hjá Burnley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×