Innlent

Skilorð fyrir líflátshótanir á hendur bankastarfsfólki

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„[Þ]að er bara verður svona hipsum happs hvort að ég ætla að koma og drepa einhvern eða meiða einhvern eða gera eitthvað annað af mér," sagði maðurinn.
„[Þ]að er bara verður svona hipsum happs hvort að ég ætla að koma og drepa einhvern eða meiða einhvern eða gera eitthvað annað af mér," sagði maðurinn. vísir/pjetur
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í síðustu viku karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hótanir á hendur bankastarfsmönnum. Maðurinn var sakaður um að hafa hótað þeim líkamsmeiðingum og lífláti.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi á síðasta ári hringt í afgreiðslu banka og hótað starfsfólki ráðast á það eða drepa það. Þannig hafi fólkið óttast um líf sitt, heilbrigði og velferð sína. Hótanirnar eru raktar í dómnum:

„Næst þegar ég er á ferðinni fyrir sunnan að þá ætla ég að koma við hjá ykkur og það er bara verður svona hipsum happs hvort að ég ætla að koma og drepa einhvern eða meiða einhvern eða gera eitthvað annað af mér. Þannig að þið megið senda þetta til lögreglunnar eða eitthvað en þetta er ekki hótun ekki bein, ég er bara að segja ykkur hvað ætla að koma og gera.“

Þá sagði hann jafnframt:

„Það er reyndar ekki þér að kenna en mér finnst þetta viðbjóður og þú mátt koma þessu áfram af því sjáðu til að miðað við það sé ég hef þurft að upplifa um ævina, að fara inn á Litla-Hraun fyrir að taka út tvo þrjá aðila eða fimm eða sex skilurðu. Skiptir mig engu máli ég á ekki konu og ekki börn þannig að ég er bara veistu ég er orðinn ógeðslega leiður á þessu. Þakka þér fyrir.“

Maðurinn baðst afsökunar á á gjörðum sínum og horfði dómurinn til þess. Hann sótti hins vegar ekki þing í málinu þrátt fyrir að hafa verið tilkynnt um að fjarvera kynni að verða metin til jafns við játningu hans.

Maðurinn var nýlega sakfelldur fyrir annað brot þar sem hann hlaut eins mánaða skilborðsbundinn dóm. Með þessu broti, símtalinu, rauf hann skilorðið og var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×