Enski boltinn

Segir að Hazard verði minnst sem besta leikmanns Chelsea frá upphafi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eden Hazard er búinn að vera frábær fyrir Chelsea.
Eden Hazard er búinn að vera frábær fyrir Chelsea. vísir/getty
Belgíska framherjans Edens Hazard verður minnst sem besta leikmanns félagsins frá upphafi. Þetta er skoðun Joe Cole, fyrrverandi leikmanns Chelsea og enska landsliðsins, sem spilaði með Chelsea í sjö ár og vann tíu stóra titla.

Hazard hefur tvívegis verið kjörinn leikmaður ársins hjá Chelsea síðan hann var keyptur frá Lille árið 2012. Hann er búinn að vinna ensku úrvalsdeildina einu sinni, deildabikarinn einu sinni og Evrópudeildina síðan hann kom til Lundúnarliðsins.

Belginn átti ekki góða leiktíð í fyrra en hann er búinn að vera magnaður fyrir toppliðið í vetur og skora níu mörk og leggja upp þrjú í úrvalsdeildinni. Hazard hefur á tíma sínum hjá Chelsea skorað 64 mörk og lagt upp 59 í 230 leikjum í öllum keppnum.

„Hans verður minnst sem besta leikmanns Chelsea frá upphafi,“ segir Joe Cole í viðtali við CFC Fan TV, en Cole spilaði með mönnum á borð við Frank Lampard, John Terry og Didier Drogba.

„Hann er klárlega hæfileikaríkasti fótboltamaðurinn sem ég hef spilað með og hann er nú þegar orðinn hetja í augum stuðningsmannanna. Vonandi klárar hann ferilinn hjá Chelsea,“ segir Joe Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×