Innlent

Kolbeinn: „Hef aldrei hlustað á umræður í þingsal án þess að vera á netinu“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kolbeinn segir að sér finnist umræðan um símanotkun þingmanna í þingsal vera skrítin.
Kolbeinn segir að sér finnist umræðan um símanotkun þingmanna í þingsal vera skrítin. Vísir/Anton
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, segir að sér finnist umræðan um notkun þingmanna á farsímum og spjaldtölvum í þingsal vera skrýtin. Þetta kemur fram á Facebook síðu Kolbeins.

Töluverð umræða var á samfélagsmiðlum í gær um símanotkun þingmanna í þingsal, á meðan Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína og umræða um hana fór fram í þingsal og sýnt var frá í sjónvarpinu. Sást til margra þingmanna í símum sínum á meðan umræðum fór fram. Þannig hefur til að mynda sést til þingmanna við spilun tölvuleiksins Candy crush á meðan þingfundi stendur.

Í færslu sinni segir Kolbeinn að umræðan virðist ganga út frá því að ekki sé hægt að hlusta á fólk tala nema horfa á það og hafa ekkert í höndunum. Því er Kolbeinn ósammála, en að eigin sögn hefur hann aldrei hlustað á umræður í þingsal án þess að vera á netinu um leið, en Kolbeinn er fyrrverandi blaðamaður og segir að sér hafi þrátt fyrir það tekist að skrifa heilu fréttaskýringarnar um umræðurnar.

„Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi var ég miskunnarlaust á netinu, Feisbúkk, Twitter, fréttamiðlum, svaraði sms-um og öðrum skilaboðum. En heyrði nú bara býsna vel það sem sagt var í pontu,“ segir Kolbeinn sem segir jafnframt að í dag hafi hann lesið skýrslu verkefnastjórnar um Rammáætlun í þingsal, á meðan hann hafi hlustað á umræður.

„Hver veit hvað ég mun lesa á þingfundinum á morgun,“ segir Kolbeinn sem segir að kannski muni hann nú láta verða af því að kaupa sér einfaldan síma, sem kemst ekki á netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×