Enski boltinn

Mourinho spurður út í nýju klippinguna á blaðamannafundi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho með nýju klippinguna.
José Mourinho með nýju klippinguna. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, mætti í dag nýklipptur á blaðamannafund sinn fyrir undanúrslitaleik United gegn Hull í enska deildabikarnum sem fer fram á morgun.

Þrátt fyrir að Portúgalinn væri ekki að skarta neinni B5-greiðslu var hann spurður út í nýju klippinguna sem er bara heiðarleg herragreiðsla.

Blaðamaðurinn sem spurði velti því fyrir sér hvort Mourinho hefði verið í klippingu þar sem nú væri komið að síðustu mánuðum tímabilsins eða „the business end of the season“ eins og hann orðaði það á ensku.

„Nei, klippingin er bara forréttindi því ég er maður sem hefur efni á þessu. Eftir einn mánuð verð ég kominn með gott hár aftur. Þetta eru forréttindi. Sumir ykkar geta líkt gert eins og ég,“ sagði Mourinho og uppskar hlátrasköll í salnum.

Manchester United vann fyrri leikinn gegn Hull, 2-0, á heimavelli og er í frábærri stöðu fyrir þann síðari á morgun. Komist liðið í úrslitaleikinn mætir það annað hvort Southampton eða Liverpool en seinni leikur þeirra fer fram í kvöld.

Lubbinn farinn.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×