Fótbolti

Hætti aðeins sex dögum eftir að hann kom liðinu á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ange Postecoglou táraðist á blaðamannafundinum.
Ange Postecoglou táraðist á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Ímyndið ykkur áfallið ef Heimir Hallgrímsson hefði hætt með íslenska fótboltalandsliðið nokkrum dögum eftir sigurinn eftirminnilega á Kósóvó í síðasta mánuði eða að Lars Lagerbäck hefði ekki farið með íslenska landsliðið á EM í Frakklandi 2016. Í slíkri stöðu eru Ástralir nú.

Ange Postecoglou stýrði ástralska fótboltalandsliðinu inn á HM í Rússlandi í síðustu viku og Ástralir verða því í pottinum með okkur Íslendingum þegar dregið verður í lok næstu viku. Postecoglou verður hinsvegar ekki með sínum mönnum næsta sumar.

Postecoglou sagði starfi sínu lausu aðeins sex dögum eftir að Ástralía vann umspilið á móti Hondúras. Ástralska liðið vann samanlagt 3-1 og verður með á fjórðu heimsmeistarakeppninni í röð. BBC segir frá.

Ástralska sambandið vildi halda Ange Postecoglou og var búið að bjóða honum nýjan samning eftir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi. Postecoglou sagði hinsvegar nei takk við því tilboði og hættir strax.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir mig. Þetta starf hefur tekið sinn toll. Það eru mikil forréttindi að fá að stýra landslið þjóðar þinnar en því fylgir líka mikil ábyrgð. Ég er á því að það sé réttast að annar maður fái nú þessa ábyrgð, maður sem hefur orku í þetta starf,“ sagði Ange Postecoglou.

Ange Postecoglou táraðist á blaðamannafundinum þar sem hann tilkynnti þessa ákvörðun sína.

Postecoglou tók við ástralska liðinu af Holger Osieck árið 2013. Liðið vann 22 af 49 leikjum undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×