Fótbolti

Allardyce áhugasamur um að taka við landsliði Bandaríkjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sam Allardyce gæti verið á leiðinni í annað landsliðsþjálfarastarf.
Sam Allardyce gæti verið á leiðinni í annað landsliðsþjálfarastarf. Visir/Getty
Sam Allardyce er spenntur fyrir því að taka við starfi landsliðsþjálfara Bandaríkjanna. Bruce Arena lét af því starfi í síðasta mánuði eftir að lið Bandaríkjanna mistókst að komast í úrslitakeppni HM 2018 í Rússlandi.

Allardyce var ráðinn landsliðsþjálfari Englands eftir EM 2016 en var rekinn aðeins nokkrum mánuðum síðar vegna ásakana um spillingu og mútuþægni.

Hann tók við Crystal Palace en hætti þar í sumar og hefur síðan verið orðaður við Everton sem er í stjóraleit. En nú virðist hann spenntastur fyrir því að halda vestur um haf.

Sjá einnig: Allardyce hættur eftir 67 daga í starfi

„Ég væri spenntur fyrir því,“ sagði hann í viðtali við TalkSPORT í Englandi. „Það er formannskjör [í knattspyrnusambandi Bandaríkjanna] sem hefur tafið þetta ferli en ef ég fengi tækifæri til að ræða við Bandaríkjamenn væri ég spenntur fyrir því.“

Allardyce spilaði sjálfur í Bandaríkjunum í skamman tíma á níunda áratugnum og setur það ekki fyrir sig að flytja aftur þangað.

„Myndir þú ekki vilja búa í Bandaríkjunum?“ sagði hann í léttum dúr.

Aron Jóhannsson, leikmaður Werder Bremen, lék sem kunnugt er með liði Bandaríkjanna á HM 2014 í Brasilíu.


Tengdar fréttir

Stóri Sam næsti stjóri Gylfa?

Sam Allardyce hefur fundað með Farhad Moshiri, eiganda Everton, um stjórastöðu liðsins. Þetta staðfesta enskir fjölmiðlar í dag.

Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Eins og fram kom á Vísi fyrir skemmstu er Sam Allardyce hættur sem þjálfari enska landsliðsins í fótbolta. Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×