Japanskt fyrirtæki, Phila Inc., hefur ákveðið að veita starfsmönnum sem ekki reykja sex launaða frídaga aukalega á ári. Með því vilja þeir jafna út þann tíma sem reykingamenn verja í pásu á degi hverjum.
Gripið var til þessa eftir að starfsmaður fyrirtækisins setti miða í hugmyndakassa þess þar sem hann benti á að reykingamenn fengju fleiri pásur heldur en þeir sem ekki reykja. Fannst honum þeir sem ekki reykja leggja harðar að sér heldur en hinir.
Aðsetur Phila er á 29. hæð í skýjakljúfi í Tókýó. Stjórnendur mældu hvað hver reykingapása tók um það bil langa stund og var sá tími um fimmtán mínútur hver pása. Var ákvörðunin um aukafríið tekin með hliðsjón af því.
