Viðskipti innlent

Fyrrverandi forstjóri Straums í stjórn Arion banka

Hörður Ægisson skrifar
Jakob Ásmundsson var forstjóri Straums fjárfestingabanka á árunum 2013 til 2015.
Jakob Ásmundsson var forstjóri Straums fjárfestingabanka á árunum 2013 til 2015.
Jakob Már Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, sest í stjórn Arion banka á aðalfundi sem verður haldinn í dag, fimmtudag. Hann kemur inn í stjórn bankans í stað Benedikts Olgeirssonar sem hefur verið í stjórn Arion banka frá því í desember 2013.

Stjórnin helst að öðru leyti óbreytt en Bandaríkjamaðurinn John P. Madden, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, sem á 87 prósent í bankanum, kom nýr inn í stjórn Arion banka fyrir tæplega sex mánuðum. Fjölgaði stjórnarmönnum þá úr sjö í átta.

Jakob er með doktorsgráðu í iðnaðarverkfræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum. Í dag starfar hann sem lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og situr í stjórn tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds. Hann tók við sem forstjóri Straums í ársbyrjun 2013 en lét af því starfi samhliða því að bankinn sameinaðist MP banka sumarið 2015, sem síðar varð Kvika banki.

Áður hafði Jakob meðal annars gegnt starfi fjármálastjóra eignaumsýslufélagsins ALMC og var hann í hópi nokkurra fyrrverandi lykilstjórnenda félagsins sem fengu hundruð milljóna króna hver í sinn hlut þegar félagið greiddi út samanlagt yfir þrjá milljarða í bónusa til starfsmanna í desember 2015.

Kaupþing vinnur nú að því, eins og áður hefur verið greint frá í Fréttablaðinu, að ganga frá sölu á um 50 prósenta hlut í Arion banka til bandarískra fjárfestingarsjóða og lífeyrissjóða. Kaupverðið verður á genginu rúmlega 0,8 miðað við eigið fé bankans, eða sem nemur um 85 milljörðum, en stefnt er að því að viðskiptin klárist á allra næstu vikum. Í kjölfarið verður sá hlutur Kaupþings sem eftir stendur, á bilinu 30-40 prósent, seldur í almennu útboði og bankinn skráður á markað, líklega næstkomandi haust.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×