Innlent

Sló barnsmóður sína með pottum og glerflösku

Anton Egilsson skrifar
Þetta er í fjórða sinn á hálfu ári sem maðurinn er úrskurðaður í nálgunarbann.
Þetta er í fjórða sinn á hálfu ári sem maðurinn er úrskurðaður í nálgunarbann. Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest sex mánaða nálgunarbann yfir manni sem grunaður er um að hafa beitt barnsmóður sína grófu ofbeldi. Er maðurinn meðal annars sagður hafa slegið barnsmóður sína með glerflösku og lamið hana með pottum. Þetta er í fjórða sinn á hálfu ári sem maðurinn er úrskurðaður í nálgunarbann.

Lögregla var kölluð á heimili konunnar í október síðastliðnum eftir að maðurinn hafði ráðist á hana og hent henni út úr íbúð þeirra. Þurftu lögreglumenn að fara inn um glugga íbúðarinnar þar sem maðurinn hafði ekki svarað þegar lögregla barði að dyrum. Fannst maðurinn í hjónarúmi á heimilinu með skerta meðvitund, líklega vegna neyslu lyfja, að því er fram kemur í greinargerð aðstoðarsaksóknara.

Óttaðist um líf sitt

Í skýrslu lögreglu kemur fram að konan hafi lýst því á vettvangi að maðurinn hefði ráðist á hana með miklum ofsa, slegið hana þungum höggum í andlit og höfuð, auk þess sem hann hafi slegið hana með glerflösku hægramegin fyrir ofan gagnaugað og kýlt hana þungu höggi í nefið.

Þá hafi maðurinn þar að auki tekið hana kverkataki og hert að þannig að hún hafi óttast um líf sitt og hefði þurft að hafa sig alla við til að losna. Árásin hefði staðið yfir í þó nokkurn tíma en maðurinn hefði síðan að endingu hent konunni út. Var konan í kjölfarið flutt á slysadeild.

Konan lýsti því einnig fyrir lögreglu að tæpri viku áður hefði maðurinn ráðist á hana og tekið hana hálstaki og hert að svo að hún hafi fengið köfnunartilfinningu og átt erfitt með að anda. Í skýrslu sem tekin var af konunni nokkrum vikum síðar kom einnig fram að í þetta sama skipti hafi maðurinn einnig lamið hana með pottum víðsvegar um líkamann.

Í skýrslutöku hjá lögreglu játaði maðurinn að hafa beitt konuna líkamlegu ofbeldi og að það hefði byrjað fyrir einhverjum árum síðan og að komið hafi fyrir að það hefði séð á konunni vegna þess.

Var maðurinn í kjölfarið úrskurðaður í fjögurra vikna nálgunarbann sem síðan var framlengt um mánuð.  Ekki var fallist á áframhaldandi nálgunarbann í byrjun desember eftir að konan óskaði eftir því. Um mánuði síðar barst svo lögreglu tilkynning um að maðurinn væri að reyna brjóta sér leið inn á heimili konunnar.

Hafði í hótunum

Lagði konan fram kæru á hendur manninum daginn eftir. Maðurinn hafði þá ítrekað sent henni tölvupósta og reynt að hafa samband við hana símleiðis. Hafði hún fengið yfir 70 tölvupósta frá manninum sem innihéldu meðal annars óbeinar hótanir. Eftir að konan birti honum skilnaðarpappíra, hafi hótanirnar svo stigmagnast. Var maðurinn því aftur úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Fram kemur í rökstuðningi lögreglustjóra að maðurinn liggi annars vegar undir sterkum grun um að hafa beitt barnsmóður sína alvarlegu ofbeldi og hins vegar að hafa valdið henni ítrekuðu ónæði og vanlíðan með samskiptum sínum við hana. Sé það mat lögreglu að hætta sé á því að maðurinn muni áfram valda konunni ónæði verði hann látinn afskiptalaus.

Staðfesti Hæstiréttur úrskurð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að maðurinn sæti sex mánaða nálgunarbanni. Samkvæmt úrskurðinum er manninum bannað að koma á eða í námunda við heimili konunnar, á svæði sem afmarkast við 50 metra radius. Þá er jafnframt lagt bann við því að maðurinn veiti konunni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×