Fótbolti

Sverrir Ingi: Tony Adams er fínn gæi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason segir að síðasta tímabil hafi verið erfitt.

Sverrir gekk í raðir spænska úrvalsdeildarliðsins Granada frá Lokeren í janúar. Granada var í slæmri stöðu þegar íslenski landsliðsmaðurinn kom og endaði á því að falla með hvelli.

„Vissulega var þetta erfiður tími. Síðustu vikurnar, þegar staðan var orðin mjög erfið, það tók á. En ég vissi alveg hver staðan var þegar ég ákvað að taka þetta skref í janúar,“ sagði Sverrir í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta er mjög svekkjandi en þetta er partur af fótboltanum,“ bætti Sverrir við.

Tony Adams tókst ekki að bjarga Granada frá falli úr spænsku úrvalsdeildinni.vísir/getty
Gamla Arsenal-goðsögnin Tony Adams tók við Granada í apríl en náði ekki að snúa gengi liðsins við. Raunar tapaði það öllum sjö leikjunum undir stjórn Adams. Þrátt fyrir það ber Sverrir honum vel söguna.

„Tony er fínn gæi. Það komu fullt af áherslubreytingum með honum en það var svolítið seint. Við vorum í erfiðri stöðu og ég hefði kannski viljað sjá sumar af þessum áherslubreytingum koma fyrr. Staðan var orðin erfið og það var s.s. ekkert sem hann hefði getað gert betur,“ sagði Sverrir sem lærði ýmislegt af Adams.

„Hann gat alveg gefið manni leiðbeiningar. Hann var auðvitað frábær leikmaður á sínum tíma og það var ýmislegt sem hann gat kennt mér.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×