Innlent

„Hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, lýsir yfir áhyggjum vegna Bandaríkjaforseta.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, lýsir yfir áhyggjum vegna Bandaríkjaforseta. vísir/anton brink
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, lýsti yfir þungum áhyggjum á Alþingi í dag vegna nýs Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, sem tekið hefur afar umdeildar ákvarðanir síðustu daga, en Trump hefur meðal annars tekið ákvörðun um að meina ríkisborgurum ákveðinna þjóða inngöngu í Bandaríkin, svo fátt eitt sé nefnt.

„Ég hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti. En ég hef sérstakar áhyggjur af yfirlýstum vilja og áhuga Bandaríkjaforseta á að hefja aftur pyntingar, sem eru glæpir gegn mannkyni og stríðsglæpir sem varða við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum, Genfarsáttmálann og Rómarsáttmálann,“ sagði Þórhildur Sunna á Alþingi í dag.

„Ég hef sérstakar áhyggjur af því að Bandaríkjaforseti muni opna að nýju leynifangelsi út um allan heim til að geta stundað þar pyntingar á yfirlýstum óvinum bandaríska ríkisins og meintum hryðjuverkamönnum þar sem hann virðist trúa á gildi og getu pyntinga til að ná fram, að sögn, mikilvægum upplýsingum,“ bætti hún við.

Þórhildur Sunna fór fram á svör frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra um hvernig íslensk stjórnvöld hyggist beita sér. „Ég vil spyrja háttvirtan utanríkisráðherra hvað hann hyggist gera til að sagan endurtaki sig ekki. Að við tökum ekki aftur beinan þátt í því að hjálpa Bandaríkjaforseta að fremja stríðsglæpi eins og kom í ljós í skýrslu árið 2007 um að ísland væri að öllum líkindum meðsekt í flutningi fanga í leynifangelsi víðs vegar um heiminn.“

Guðlaugur Þór sagði stjórnvöld fylgja sinni utanríkisstefnu, líkt og þau hafi alltaf gert og muni áfram gera. „Ég held að besta leiðin til að berjast fyrir mannréttindum sé að ræða hlutina málefnalega og ekki mjög gildishlaðið. [...] Þessar sviðsmyndir sem háttvirtur þingmaður er að draga hér upp ,ég kýs að vera ekki neitt að leggja neitt út af þeim enda finnst mér það vera nokkuð hæpið,“ sagði Guðlaugur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×