Enski boltinn

Síðasti séns fyrir Liverpool | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Stærsti leikur dagsins, og umferðarinnar, fer fram á Anfield þar sem Liverpool tekur á móti Chelsea.

Gengi liðanna hefur verið afar ólíkt að undanförnu. Chelsea hefur unnið 15 af síðustu 16 leikjum sínum og er með átta stiga forskot á toppi deildarinnar.

Á meðan hefur Liverpool hisktað, er komið niður í 4. sæti deildarinnar og dottið út úr báðum bikarkeppnunum. Rauði herinn þarf því nauðsynlega á sigri að halda í kvöld.

Óvíst er með þátttöku Sadios Mané en hann er nýkominn aftur til Liverpool eftir að hafa verið með Senegal í Afríkukeppninni í Gabon.

Arsenal tekur á móti Watford á Emirates. Tölfræðin er með Arsenal í liði en Skytturnar hafa unnið alla sjö leiki sína gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City fá Southampton í heimsókn. Svanirnir unnu góðan sigur á Liverpool á Anfield í síðustu umferð og komust þar með upp úr fallsæti.

Hitt Íslendingaliðið, Burnley, tekur á móti Englandsmeisturum Leicester City. Jóhanni Berg Guðmundsson og félagar hafa verið frábærir á heimavelli í vetur og náð þar í 25 af 26 stigum sínum.

Tottenham sækir botnlið Sunderland heim. Spurs hefur verið í fantaformi að undanförnu og fengið 19 af 21 stigi mögulegu í síðustu sjö leikjum sínum.

Sam Allardyce bíður enn eftir sínum fyrsta deildarsigri sem knattspyrnustjóri Crystal Palace. Lundúnaliðið sækir Bournemouth heim.

Þá mætast Middlesbrough og West Brom á Árbakkavelli.

Leikir kvöldsins:

19:45 Arsenal - Watford

19:45 Swansea - Southampton

19:45 Burnley - Leicester

19:45 Sunderland - Tottenham

19:45 Bournemouth - Crystal Palace

19:45 Middlesbrough - West Brom

20:00 Liverpool - Chelsea (beint á Stöð 2 Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×