Enski boltinn

Vildi aldrei fara til Liverpool: Þurfti að gúgla nöfn leikmanna í þyrluferðinni frægu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andy Carroll sló ekki í gegn hjá Liverpool.
Andy Carroll sló ekki í gegn hjá Liverpool. vísir/getty
Andy Carroll, framherji West Ham, viðurkennir í viðtali sem Jamie Redknapp, fyrrverandi miðjumaður Liverpool, tekur við hann í enska blaðinu Daily Mail að hann langaði aldrei að fara til Liverpool þegar hann var keyptur þangað í janúar 2011. Hann vissi ekki hverjir liðsfélagar hans voru á leiðinni á Melwood, æfingasvæði Liverpool.

Carroll var keyptur til Liverpool frá Newcastle fyrir 35 milljónir punda en náði aldrei að komast í gang hjá liðinu. Hann fór á lán til West Ham ári síðar og gekk svo endanlega í raðir Lundúnarliðisins árið 2013.

Eftir að slá í gegn hjá Newcastle skoraði Carroll aðeins ellefu mörk í 58 leikjum fyrir Liverpool og er sagður ein verstu kaup í sögu félagsins þar sem hann skoraði svo lítið. Salan kom honum sjálfum á óvart en hann vildi vera áfram hjá Newcastle á þessum tíma.

„Jamie, þegar ég var að fara frá Newcastle til Liverpool í þyrlunni þurfti ég að gúgla nöfn leikmanna Liverpool í símanum mínum til að vita hverjir samherjar mínir væru. Ég var að fara að skrifa undir en vissi ekki hverjir voru að fara að verða liðsfélagar mínir,“ segir Carroll en mikið var gert úr þessari þyrluferð á sínum tíma.

„Ég þekkti Stevie [Steven Gerrard] og suma aðra en ekki alla. Og ég elska Newcastle. Ég var ekki reiðubúinn að fara. Þetta var áfall fyrir mig.“

„Ég hafði verið ársmiðahafi hjá Newcastle. Þetta var mitt félag og það var áfall að þurfa að fara. Ég var bara 22 ára og náði aldrei tökum á hlutunum hjá Liverpool,“ segir Andy Carroll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×