Enski boltinn

Liðsfélagi Birkis verður úti í kuldanum þar til hann biðst afsökunar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ross McCormack komst ekki í gegnum hliðið.
Ross McCormack komst ekki í gegnum hliðið. vísir/getty
Ross McCormack, framherji Aston Villa og samherji íslenska landsliðsmannsins Birkis Bjarnasonar, verður áfram úti í kuldanum hjá Steve Bruce, knattspyrnustjóra félagsins, þar til hann biðst afsökunar á gjörðum sínum. Hann langar að komast burt áður en félagaskiptaglugganum verður lokað í dag en engin tilboð hafa borist.

Fyrr í mánuðinum mætti McCormack ekki á æfingu og bar við að hliðið heima hjá honum hefði ekki opnast. Bruce gaf lítið fyrir þessa skýringu framherjans sem kom frá Fulham fyrir tímabilið og er búinn að láta hann æfa með U23 ára liðinu.

Villa hefur gefið út að það er reiðubúið að hlusta á tilboð í framherjann sem er búinn að skora þrjú mörk í 20 leikjum á tímabilinu. Það kemur alveg til greina að selja hann í dag, á lokadegi félagskipta, ef einhver vill fá hann.

„Ég hef ekki heyrt í neinum. Það er undir Ross komið að biðjast afsökunar og viðurkenna að hann braut af sér. Hann verður að biðja mig og liðsfélaga sína afsökunar. Ef það gerist þá gleymum við þessu,“ sagði Bruce á blaðamannafundi í gær.

„Boltinn er hjá honum. Það hefur ekkert félag haft samband út af honum þannig ef ekkert breytist á næstu 24 tímum þá verður þetta bara eins. Ég hef heldur ekkert heyrt í honum,“ sagði Steve Bruce.

Aston Villa mætir Brentford í kvöld þar sem Birkir Bjarnason þreytir væntanlega frumraun sína með liðinu. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 19.40.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×