Enski boltinn

Stjarna Man Utd þakklátur Jürgen Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett/Getty
Stuðningsmenn og knattspyrnustjóri Manchester United hafa nú tekið Henrikh Mkhitaryan í sátt eftir erfiða byrjun Armenans í ensku úrvalsdeildinni.

Henrikh Mkhitaryan var settur út í kuldann eftir ósannfærandi frammistöðu og meiðsli í öðrum mánuði tímabilsins. Hann kom ekkert við sögu í átta deildarleikjum í röð eða í tíu vikur.

Það voru víst góð ráð frá Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, sem átti mikinn þátt í að hjálpa Mkhitaryan í gegnum mótlætið.

„Ég þakklátur Klopp. Hann vann með persónuleikann og andlega þáttinn,“ sagði Henrikh Mkhitaryan en hann var þó ekki að tala um nýleg samskipti sín við Jürgen Klopp. BBC segir frá.

„Ég var mjög stressaður eftir fyrstu leikina mína hjá Dortmund af því að við vorum að spila illa. Klopp sýndi mér réttu leiðina. Hann studdi við bakið á mér og sagði mér að halda haus því góðir tímar væru á leiðinni. Hann hjálpaði mér að verða að leikmanni,“ sagði Mkhitaryan.

Jürgen Klopp hjálpaði Mkhitaryan þarna í gegnum erfiða tíma þegar Armeninn spilaði í tvö tímabil hjá honum með Borussia Dortmund.

Henrikh Mkhitaryan fékk aftur tækifæri hjá Jose Mourinho eftir fyrrnefndar tíu vikur og nýtt það vel. Hann skoraði meðal annars tvö mörk á móti West Ham í enska deildabikarnum og svo sigurmarkið í leik á móti Tottenham.

Mkhitaryan var síðan bæði með mark og stoðsendingu í 3-0 sigri á Englandsmeisturum Leicester City um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×