Erlent

Aldursforsetinn Conyer fer á eftirlaun

Atli Ísleifsson skrifar
John Conyer tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 1965.
John Conyer tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 1965. Vísir/Getty
John Conyer, þingmaður Demókrata og sá núverandi þingmanna sem hefur lengstan starfsaldur í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, tilkynnti í dag að hann ætli að láta af þingmennsku. Hinn 88 ára Conyer, sem hefur átt sæti á þinginu fyrir Michigan frá árinu 1965, hefur að undanförnu verið sakaður um að hafa áreitt konur kynferðislega.

Conyer greindi frá ákvörðun sinni í útvarpsviðtali í Detroit í dag og þykir tilkynningin um afsögn ekki koma á óvart.

Í viðtalinu sagðist Conyer saklaus af þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. Hann hefur að undanförnu legið inni á sjúkrahúsi vegna svima og segir lögmaður Conyer afsögnina vera af heilsufarsástæðum.

Conyer tilkynnti jafnframt að hann styðji son sinn, John Conyer III, til að taka sæti sitt á Bandaríkjaþingi.

Fjöldi fyrrverandi samstarfsmanna Conyer hafa að undanförnu sigið fram og sakað hann um kynferðislega áreitni. Einnig hafa borist fréttir af því að Conyer hafi greitt konu til að greina ekki opinberlega frá árásum þingmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×