Ágúst Arnar segir að umsóknarfrestur sé til 15. nóvember og stefnt sé að því að greiða tveimur dögu meftir að honum lýkur.
„Eftir langa bið og mikla baráttu er loksins komið að því að Zúistar geti fengið endurgreiðslu á sóknargjöldum. Meðlimum er einnig boðið að láta sóknargjöldin renna til góðgerðarmála. Zuism hefur nú þegar styrkt Barnaspítala Hringsins um 1,1 milljón til tækjakaupa. Félagið styrkti einnig neyðarsjóð UNICEF með 300 þúsund króna framlagi í fyrradag og mun halda áfram að styrkja önnur góðgerðarmálefni á næstu misserum. Zuism er eina trúfélag landsins sem leyfir sóknarbörnum að ráðstafa sínum sóknargjöldum. Við hvetjum fólk til að skrá sig í félagið fyrir 1. desember því stefnt er að því að endurgreiðslur muni halda áfram á næsta ári,“ segir Ágúst í tilkynningu.

Öldungaráðið skipa þeir sem tóku félagið yfir árið 2015 og hóf að safna meðlimum í stórum stíl þar sem því var heitið að endurgreiða þeim út tæplega 11 þúsund króna sóknargjöld sem renna árlega úr ríkissjóði til trúfleaga fyrir hvern skráðan meðlim.
Um þrjú þúsund manns skráðu sig þá í félagið. Forstöðumaður fyrir hönd þessa hóps, Ísak Andri Ólafsson, var settur af með úrskurði innanríkisráðuneytisins í janúar á þessu ári eftir að Ágúst gerði kröfu um það.
Ágúst Arnar er annar svokallaðra Kickstarter-bræðra, en bróðir hans Einar Ágústsson, var í desember 2013 skráður sem forsvarsmaður félagsins í fyrirtækjaskrá eftir að upphaflegur formaður hætti. Einar hlaut í júní þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik, en báðir bræðurnir voru til rannsóknar í málinu en aðeins gefin út ákæra á hendur Einari, líkt og segir í frétt Fréttablaðsins.