Gunnar Nelson snýr aftur í búrið á laugardaginn þegar hann mætir Bandaríkjamanninum Alan Jouban í London.
Það eru tíu mánuðir síðan Gunnar Nelson pakkaði Rússanum Albert Tumenov saman í Rotterdam. Vegna meiðsla gat Gunnar ekki barist aftur eins og til stóð í Dyflinni í nóvember á síðasta ári en nú er komið að því. Gunnar Nelson stígur aftur inn í búrið í O2-Höllinni í London á laugardagskvöldið.
Þrátt fyrir að reyna fékk Gunnar ekki bardaga á móti manni á topplistanum í veltivigtinni en mótherjinn, Alan Jouban, er á mikilli uppleið - búinn að vinna þrjá bardaga í röð. Bandaríkjamaðurinn getur látið heiminn vita af sér með sigri á okkar manni en hvað er það sem Gunnar fær út úr þessum bardaga?
„Fyrst og fremst minnir hann á sig. Það er langt síðan hann hefur barist og þetta er fínt tækifæri fyrir hann að berjast og sýna öllum hvað hann getur því menn eru fljótir að gleymast í þessum bransa,“ segir Pétur Marinó Jónsson, aðalsérfræðingur 365 um MMA og lýsandi UFC á Stöð 2 Sport.
„Það er betra að klára þetta því hann hefur klárað svo marga bardaga. Það er helsta ástæðan fyrir því að hann er svona ofarlega á styrkleikalistanum. Þó hann hafi ekki unnið stór nöfn þá er hann að klára þessa gaura og ef hann heldur því áfram verður það bara enn ein fjöðurinn í hattinn hans.“
Þrátt fyrir að Jouban sé á uppleið segir Pétur það alveg klárt hver á að vinna bardagann.
„Gunni. Hann á að klára hann í gólfinu. Gunni er frábær svartbeltingur í gólfinu. Hann er með brúnt belti í jiu-jitsu sem er mjög gott. Það er samt munur á að vera góður í gólfinu og að vera heimsklassa glímumaður eins og Gunni er þannig Gunni á að taka þetta,“ segir Pétur Marinó Jónsson.
Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.
Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
Pétur Marinó: Menn eru fljótir að gleymast í þessum bransa
Tengdar fréttir

Kjúklingur og símaviðtöl hjá Gunnari sem gengur vel með niðurskurðinn
Gunnar Nelson fór út að borða og sinnti fjölmiðlum á fyrsta degi bardagavikunnar í London.

Áhugaverð greining á bardaga Gunnars og Jouban
Í þættinum UFC Breakdown með John Gooden, Dan Hardy og John Peet er skemmtileg úttekt á bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban sem mætast um næstu helgi.

Gunnar Nelson mættur til London
Gunnar Nelson snýr aftur í búrið á laugardaginn þegar hann mætir Alan Jouban í O2-höllinni í Lundúnum.

Jouban: Biðin í búningsklefanum er hrikalega erfið
Í nýju innslagi frá UFC er hægt að kynnast næsta andstæðingi Gunnars Nelson, Alan Jouban, betur.