Komið var í veg fyrir tvær umfangsmiklar smygltilraunir í Asíu í dag. Tollverðir á flugvellinum í Hanoi í Víetnam lögðu í dag hald á 118 kíló af nashyrningahornum sem reynt var að smygla inn í landið frá Kenía í tveimur ferðatöskum. Nashyrningar hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum og hefur þeim farið sífellt fækkandi vegna mikillar eftirspurnar á hornum, sem talin eru lækna hina ýmsu kvilla.
Fyrr í dag lögðu tollverðir í Taílandi hald á 50 kíló af hornum sem reynt var að smygla til landsins frá Eþíópíu.
Sérfræðingar segja að villtum nashyrningum hafi fækkað úr um hálfri milljón í upphafi síðustu aldar í um 29 þúsund. Gífurleg eftirspurn hefur ýtt undir mikinn veiðiþjófnað. Mest er eftirspurnin í Kína og Víetnam, þar sem margir telja ranglega að nashyrningahorn geti læknað krabbamein, dregið úr timburmönnum og margt fleira.
Í síðustu viku brutust veiðiþjófar inn í dýragarð í Frakklandi og skutu hvítan nashyrning þrisvar sinnum í höfuðið og söguðu af honum hornið.
AFP fréttaveitan segir að eitt kíló af hornum geti selst á allt að 60 þúsund dali. Það samsvarar um 6,7 milljónum króna. Heildarverðmæti hornanna í Víetnam gæti því verið allt að um 800 milljónum króna. Hornin í Taílandi hefði selst á minna en helming af því.
Sala horna var bönnuð á heimsvísu árið 1977. Víetnam er þó þungamiðja smygls með horna, en þangað eru þau flutt að mestu frá Afríku. Þaðan eru hornin svo flutt víðar um Asíu.
