Erlent

Sjálfstæði frestað og gengið til samningaviðræðna við Spán

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katalónskir bændur lögðu dráttarvélum sínum við Sigurbogann í Barcelona í gær til að krefjast sjálfstæðis.
Katalónskir bændur lögðu dráttarvélum sínum við Sigurbogann í Barcelona í gær til að krefjast sjálfstæðis. vísir/afp
Katalónar frestuðu því í gær að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni. Fresturinn er hugsaður til að ná samningum við spænsk stjórnvöld.

„Við munum lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni en við erum að gefa þeim smá tíma,“ sagði Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, í ávarpi sínu til katalónska þingsins í gær. Hann biðlaði til spænskra stjórnvalda að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu héraðsins.

Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu.vísir/afp
Togstreitan á milli Spánverja og Katalóna hefur magnast dag frá degi allt frá því katalónska þingið samþykkti að kosið yrði um sjálfstæði héraðsins. Spánverjar lýstu kosningarnar ólöglegar og sendu lögreglu á svæðið til þess að gera kjörgögn upptæk. Átök við lögreglu á kjördag skiluðu hundruðum Katalóna á sjúkrahús. Alls kusu níutíu prósent þátttakenda með sjálfstæði en kjörsóknin var um fjörutíu prósent.

Katalónska lögreglan, Mossos d’Esquadra, stóð vörð fyrir utan þinghúsið í gær og nánasta umhverfi hússins var lokað fyrir almenningi. Samkvæmt yfirvöldum var það gert í öryggisskyni.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, heldur ræðu á spænska þinginu í dag og hafði ekki tjáð sig um ræðu Puigdemont þegar Fréttablaðið fór í prentun. Hann hefur áður sagt að það komi ekki til greina að Katalónía fái að kljúfa sig frá Spáni. Samkvæmt stjórnarskrá Spánar hefur ríkisstjórnin rétt til þess að svipta Katalóníu sjálfsstjórnarréttindunum.

Áður en forsetinn hélt ræðu sína biðlaði borgarstjóri Barcelona til hans og Rajoy um að reyna að draga úr spennunni. Ríkisstjórn Spánar hvatti Puigdemont jafnframt til þess að gera ekkert sem hann gæti ekki dregið til baka og að lýsa ekki yfir sjálfstæði einhliða.

Evrópusambandsliðar hvöttu jafnframt til þess að sjálfstæðisyfirlýsing yrði ekki gefin út. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði slíka yfirlýsingu slæma fyrir Katalóna, fyrir Spánverja og fyrir gjörvalla Evrópu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×