Innlent

Vilja að íbúar geti gengið alla strandlengjuna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bæjarfulltrúi í Kópavogi vill minni umferðarhraða á Kársnesi.
Bæjarfulltrúi í Kópavogi vill minni umferðarhraða á Kársnesi. vísir/vilhelm
Tveir bæjarfulltrúar minnihlutans í Kópavogi gagnrýndu á fundi bæjarráðs á fimmtudag áform um breytingu deiliskipulags landfyllingarinnar á Kársnesi þar sem byggja á heilsulindarhótel. Telja þeir óásættanlegt að aðgengi almennings að strandlengju Kársness verði skert.

„Ég vil einfaldlega ekki loka strandlengjunni fyrir almenningi í þágu einkaaðila,“ segir Ása Richardsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Hún gagnrýndi deiliskipulagsbreytingu Vesturvarar 40 til 50. Það gerði einnig Margrét Júlía Rafnsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna og félagshyggjufólks, sem benti á að samkvæmt náttúruverndarlögum sé lögð áhersla á að almenningur hafi aðgang að allri strandlengjunni.

„Þarna er um 155 metra af 4.600 metra strandlengju Kársness að ræða þar sem gönguleiðin tekur smá hlykk. Umrætt svæði verður opið fyrir almenning og mun auka almenn lífsgæði,“ bókaði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, á fundinum.

Bæjarráðið vísaði tillögunni að breyttu deiluskipulagi til bæjarstjórnar. Ása greiddi atkvæði gegn henni og bókaði að hótelið væri fyrirhugað á lokuðu svæði en ekki almenningssvæði. Margrét Júlía sat hjá. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×