Erlent

Facebook notar gervigreind til að greina hvort notendur séu í sjálfsvíshugleiðingum

Birgir Olgeirsson skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, greinir frá því hvernig Facebook notar gervigreind til að bera kennsl á þá sem eru haldnir sjálfsvíshugsunum og koma þeim til hjálpar.

„Í síðasta mánuði hjálpaði þessi tækni okkur að hafa samband við viðbragðsaðila í fljótheitum oftar en hundrað sinnum,“ segir Zuckerberg í færslu sem hann birtir á Facebook.

Hann segir gott að minna á að gervigreind geti í raun hjálpað til við að bjarga lífum, á tímum þar sem margir óttast skaðlegar afleiðingar af gervigreind í framtíðinni.

Zuckerberg segir margar leiðir til að bæta þessa tækni. Í dag sé þessi tækni notuð til að greina mynstur notenda og sjá merki um sjálfsvígshugsanir. „Þar á meðal eru athugasemdir um hvort einhver sé í lagi, og það er tilkynnt til okkar teymis sem er á sólarhringsvakt um allan heim við það að koma fólki til hjálpar á skömmum tíma,“ segir Zuckerberg.

Hann segir að seinna meir muni þessi gervigreind geta áttað sig betur á blæbrigðum tungumála og geti jafnvel greint önnur samfélagsmein á borð við einelti og hatursorðræðu.

Fyrr á árinu kynnti Facebook til leiks aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir sjálfsvíg. Gátu notendur tilkynnt í gegnum Facebook ef grunar var um að einhver væri haldinn sjálfsvígshugsunum. Nú er þessi tækni komin á það stig að ekki þarf lengur notendur til að tilkynna um einhvern sem sýnir þessi merki, heldur getur gervigreindin séð um að greina hegðun notenda á Facebook og hvort þeir séu hjálparþurfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×