Enski boltinn

Chelsea með auðveldan sigur á Arsenal | Komnir með tólf stiga forystu á toppnum | Sjáðu mörkin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Chelsea vann auðveldan sigur á Arsneal, 3-1, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í London í hádeginu í dag.

Sigur heimamanna var aldrei í hættu og náðu leikmenn Arsenal sér aldrei á strik í dag.

Marcos Alonso skallaði boltann í netið á 13. mínútu leiksins og gaf tóninn fyrir heimamenn. Staðan var 1-0 í hálfleik en samt sem áður Chelsea með fulla stjórn á leiknum.

Eden Hazard kom Chelsea í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks eftir ótrúlegan sprett frá miðju vallarins. Hann lék sér að hverjum leikmanni Arsenal á fætur öðrum og setti síðan boltann framhjá Cech í markinu hjá Arsenal.

Cesc Fábregas skoraði síðan þriðja mark Chelsea æa 85. mínútu eftir skelfileg mistök frá Petr Cech í markinu. Tékkinn einfaldlega gaf bara beint á Fábregas sem vippaði boltanum yfir hann og í autt netið.

Olivier Giroud minnkaði muninn fyrir Arsenal þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma og niðurstaðan 3-1 sigur Chelsea sem er enn á toppi deildarinnar með 59 stig, 12 stigum á undan Arsenal sem er í þriðja sætinu með 47 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×