Körfubolti

Arnór frá í fjórar til sex vikur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Hermannsson mundar hægri höndina, en hann mun ekki geta beitt henni næstu vikurnar
Arnór Hermannsson mundar hægri höndina, en hann mun ekki geta beitt henni næstu vikurnar Vísir/Anton
Arnór Hermannsson, leikmaður KR í Domino's deildinni í körfubolta, brotnaði á hendi í leik með unglingaflokki KR í gærkvöld.

Arnór staðfesti í samtali við Vísi að hann verði frá í fjórar til sex vikur.

Hann lýsir atvikinu þannig að hann hafi fengið mann undir sig er hann ætlaði að verja skot svo hann fellur til jarðar. Hann bar hægri höndina fyrir sig til að verja andlitið er hann féll og við það brotnaði hún.

„Ég fann strax að ég annað hvort datt úr lið eða eitthvað,“ sagði Arnór. „Fyrsta sem ég gerði var að fara á bekkinn og hvíla, en svo fór ég aftur inn á. Ætlaði að reyna, en eftir tvær sendingar bað ég strax um skiptingu, það var ekki séns.“

Arnór sagðist hafa eytt nóttinni á bráðamótökunni í Fossvoginum og að líðan sín væri ekki góð.

„Aumur í hendinni og ekki góður, andlega er ég ekki góður, en samt fínn bara,“ sagði Arnór Hermannsson.

Arnór, sem fæddur er árið 1998, hefur verið með fyrstu mönnum inn af bekknum hjá KR í Domino's deildinni það sem af er tímabils og er mikill missir fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×