Enski boltinn

Ensku meistararnir hafna risatilboði í Slimani

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Slimani fagnar einu af mörkum sínum í vetur.
Slimani fagnar einu af mörkum sínum í vetur. Vísir/getty
Ensku meistararnir í Leicester höfnuðu samkvæmt breskum fjölmiðlum risatilboði í framherjan Islam Slimani en greint var frá þessu í gærkvöldi og Slimani sagður ekki til sölu.

Slimani var dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins þegar Leicester greiddi 29 milljónir punda fyrir alsírska framherjann frá Sporting Lisbon en hann hefur skorað sex mörk í sextán leikjum á Englandi.

Talið er að tilboðið sem kom frá Tianjin Quanjan hafi hljómað upp á 38 milljónir punda eða níu milljónum meira en Leicester greiddi fyrir Slimani fyrir hálfu ári síðan.

Er sagt að það þurfi upphæð sem ekki verði hægt að neita til þess að Leicester samþykki tilboð í Slimani sem hefur verið ásamt Riyad Mahrez í Afríkukeppninni undanfarnar vikur.

Er talið að Leicester ætli að bæta við leikmannahóp sinn í stað þess að selja en ensku meistararnir eru óvænt að sogast niður í fallbaráttu í stað þess að verja titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×