Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagði í sínu fyrsta símtali við Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, að kjarnorkusamningur sem ríkin gerðu með sér árið 2010 væri enn einn slæmi samningurinn sem forveri hans í embætti, Barack Obama, hefði gert og að hann væri ekki Bandaríkjunum í hag. Reuters greinir frá þessu og hefur eftir heimildamönnum sínum innan bandaríska stjórnkerfisins.
Samningurinn kveður á um að bæði Bandaríkin og Rússland skuldbinda sig til að minnka þann fjölda kjarnorkuvopna sem þjóðirnar hafa til umráða.
Þegar Pútín minntist á möguleikann á að framlengja samninginn í símtalinu við Trump þurfti hann að gera hlé á samtalinu til að spyrja ráðgjafa sína um hvaða samning Rússlandsforseti væri að tala. Þegar hann hafði svo fengið það á hreint sagði hann að þetta væri slæmur samningur fyrir Bandaríkin en væri hins vegar Rússum í hag. Þá talaði Trump líka um vinsældir sínar við Pútín.
Símtalið varði í um klukkustund í síðasta mánuði. Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði þá að um einkasamtal á milli forsetanna hefði verið að ræða og að hann vildi ekki fara nánar út í það.
Í kosningabaráttu sinni minntist Trump einu sinni á samninginn. Hann hélt því þá ranglega fram að hann fæli það í sér að Rússar gætu haldið áfram að framleiða kjarnavopn á meðan Bandaríkin mættu það ekki.
Jeanne Shaheen, öldungadeildarþingmaður Demókrata og nefndarmaður í utanríkismálanefnd öldungadeildar, segir það grafalvarlegt ef forseti Bandaríkjanna viti ekki hvað felist í samningi ríkjanna varðandi kjarnavopn.
„Samningurinn hefur án efa gert landið okkar öruggara en það er skoðun þjóðaröryggissérfræðinga bæði í Rússlandi og Bandaríkjunum,“ sagði Shaheen í yfirlýsingu.
Trump sagði Pútín að kjarnorkusamningur ríkjanna væri slæmur fyrir Bandaríkin

Tengdar fréttir

Trump ver Pútín: „Heldur þú að landið okkar sé svona saklaust?“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ver Vladimír Pútín, í nýlegu viðtali, gegn ásökunum um morð sem framin hafa verið af rússneskum stjórnvöldum.

Putin vill að Fox biðjist afsökunar
Bill O'Reilly kallaði forsetann "morðingja“ í samtali við Donald Trump og segist ekki ætla að biðjast afsökunar, fyrr en mögulega árið 2013.