Lífið

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Áreiti hluti af starfi skemmtikrafta

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söngkona, og Atli Viðar Þorsteinsson, plötusnúður, ræða um áreiti sem því fylgir að hafa atvinnu af því að skemmta öðrum í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, en bæði hafa þau orðið fyrir slíku við það eitt að vinna sína vinnu.

Söngkonan Salka Sól Eyfeld var á laugardagskvöldið áreitt af gesti á árshátíð Icelandair sem fram fór í Laugardalshöll þegar hún var við það að stíga á svið.

Salka greindi frá því á Twitter þegar gestur árshátíðarinnar kleip hana í rassinn og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Margir skemmtikraftar lenda í slíku áreiti í vinnunni. Þórunn og Atli Viðar þeirra á meðal.

Þorsteinn Guðmundsson, Bubbi og Dóri DNA létu sig málið einnig varða á Twitter og tóku undir með Sölku. 

Sjá einnig: Bubbi hefur oft verið áreittur kynferðislega og skilur Sölku Sól vel: „Konur hafa oft gripið í klof mér og rassinn.“

Þá lýsti Margrét Erla Maack, dansari og plötusnúður, reynslu sinni í Fréttablaðinu í dag. Hún hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur í rúman áratug og snemma á ferlinum áttaði hún sig á að áreitni af ýmsum toga af hálfu drukkinna einstaklinga væri partur af starfinu. „Þetta er alveg helmingur af þeim giggum sem ég tek, þá lendi ég í einhvers konar káfi, áreitni eða óviðeigandi athugasemdum,“ sagði Margrét.

Ítarlega verður fjallað um málið og rætt við Þórunni Antoníu og Atla Viðar, í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem hefjast á slaginu 18.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.