Viðskipti innlent

Kaup vogunarsjóða á Arion munu reyna á Fjármálaeftirlitið að mati AGS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vogunarsjóðirnir munu eignast allt að 51 prósent hlut í Arion banka.
Vogunarsjóðirnir munu eignast allt að 51 prósent hlut í Arion banka. vísir/eyþór
Sýna þarf þolinmæði við einkavæðingu bankanna og gæði nýrra eigenda ættu að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna eða verð að mati sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þetta kemur fram í lokayfirlýsingu sendinefndarinnar sem saminn var eftir tveggja vikna vinnu nefndarinnar hér á landi þar sem hún hefur átt fundi með fulltrúum stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, aðilum á vinnumarkaði og fulltrúum einkageirans.

Í yfirlýsingunni eru nýleg kaup Goldman Sachs og þriggja vogunarsjóða á hlut í Arion banka gerð að umtalsefni og segir að kaupin muni reyna á Fjármálaeftirlitið. Frá sjónarhóli fjármálastöðugleika og hlutleysis sé nauðsynlegt að framkvæmt verði ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt hæfismat á eigendum bankanna.

Þá segir að við einkavæðingu Íslandsbanka og Landsbanka ætti að leggja áherslu á að finna íhaldssama kaupendur sem sýnt hafa langtíma hollustu við Ísland.

Lokayfirlýsing sendinefndarinnar lýsir bráðabirgðaniðurstöðu nefndarinnar í lok opinberrar heimsóknar og mun sendinefndin taka saman skýrslu sem verður afhent framkvæmdastjórn sjóðsins til umræðu og ákvörðunar.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars að höfuðviðfangsefni stjórnvalda við opnun fjármálakerfisins hér á landi verði að vera styrking á eftirliti með fjármálageiranum. Greinileg hætta sé á ofþenslu en að styrking krónunnar hafi dempandi áhrif.

Yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

FME mun kanna orðspor hluthafa í Arion banka

Fjármálaeftirlitið mun meðal annars kanna orðspor þeirra sem eiga hlut í Arion banka og hvort hugsast geti að þeir sem keyptu hlut í bankanum um helgina eigi sameiginlega það mikið að þeir geti talist virkir hluthafar nú þegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×