Fyrsti þéttbýliskjarninn er að verða til í Öræfasveit. Sveitarfélagið hefur látið skipuleggja nýtt þorp fyrir átján íbúðarhús til að mæta húsnæðisskorti. Fjallað var um Öræfin í fréttum Stöðvar 2.
Ferðaþjónustan í sveitunum sunnan Vatnajökuls blómstrar sem aldrei fyrr. Nýir gististaðir og afþreyingarfyrirtæki kalla eftir sífellt fleira starfsfólki og það þarf einhversstaðar að búa. Að Hofi í Öræfum, við grunnskólann að Hofgarði, er búið að skipuleggja þrjár íbúðagötur.
„Já, það er búið að deiliskipuleggja þar átján íbúða hverfi við skólann. Vonandi fer bara að hefjast þar uppbygging á húsum,” segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar.
„Sveitarfélagið þarf til dæmis sjálft að byggja þar tvær til þrjár íbúðir bara fyrir starfsfólk grunnskólans. Og við þurfum að huga að því að það sé klárt strax á næsta ári.”
Nýr skólastjóri Öræfinga, Magnhildur Björk Gísladóttir, kynntist húsnæðisskortinum af eigin raun.
„Þegar ég réði mig hingað í vor þá var ekkert útséð um hvar ég byggi. En Öræfingar eru greiðvikið fólk og hafa getað séð til þess að ég hafi getað búið einhversstaðar,” segir Magnhildur.
Bæjarstjórinn Björn Ingi sér bjarta tíma framundan í Öræfum. Þó að menn tali um að það hægist eitthvað á fjölgun ferðamanna á milli ára sé þetta það mikið að sveitarfélagið verði að eflast til að vera betur í stakk búið til að þjónusta og sinna þeim.
Kirkjubæjarklaustur er næsti þéttbýliskjarni í vestri og Hornafjörður í austri og er um 200 kílómetra vegalengd þar á milli. Nú eru horfur á að nýtt þéttbýli gæti myndast þar á milli, að Hofi í Öræfum.
„Já, þegar verða komnar þarna tvær þrjár götur með um átján húsum þá er þetta bara orðinn þéttbýliskjarni,” segir Björn Ingi.
Fjallað verður um Öræfasveit í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í kvöld:
Innlent