Skoðun

Mannréttindabrot gegn börnum fátækra

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Grundvallarmannréttindi hafa ekki verið virt sem skyldi hér á landi þegar kemur að öllum börnum og barnafjölskyldum. Mannréttindi samfélags eiga hvorki að vera háð efnahagi né völdum. Fátækt er samfélagsmein sem hefur aukist á Íslandi síðustu ár.

Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt. Þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum eins og skólagöngu verður að tryggja að börn sitji við sama borð án tillits til efnahagsstöðu foreldra þeirra. Krafa Flokks fólksins er að grunnskólar landsins verði gjaldfrjálsir með öllu og að börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum.

Ríkisvaldið hefur ekki staðið sig nægjanlega vel gagnvart börnum efnaminni foreldra þegar kemur að sanngjarnri dreifingu fjármagns til að jöfnuður megi ríkja. Staðreyndin er sú að það búa ekki allar fjölskyldur við sjálfsögð mannréttindi á Íslandi. Sumar fjölskyldur búa við óviðunandi húsnæðisaðstæður ýmist vegna lélegs húsakosts eða þrengsla. Það er heldur ekki lengur nýlunda að frétta af börnum sem hafa gengið í allt að fjóra grunnskóla vegna tíðra flutninga fjölskyldunnar. Afleiðingar fátæktar á bernskuárum geta haft víðtæk áhrif á börn. Börn sem hafa búið við óstöðugleika til lengri tíma geta auðveldlega borið skaða af. Mörg hver finna til vanmáttar og glíma við brotna sjálfsmynd, jafnvel alla ævi.

Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×